Grindavík opnuð íbúum og fyrirtækjum - mega gista
Dregið verður úr viðveru viðbragðsaðila í Grindavík en lögregla sinnir lögbundnu eftirliti
Íbúum í Grindavík og fyrirtækjaeigendum er nú heimilt að dvelja og starfa í bænum allan sólarhringinn en þó á eigin ábyrgð. Þeir mega gista næturlangt en lögreglustjóri mælir ekki með því. Ríkislögreglustjóri hefur því fallið frá fyrirmælum um brottflutning úr Grindavík frá og með 19. febrúar 2024. Nýtt fyrirkomulag tekur gildi kl. 7 í fyrramálið, þriðjudaginn 20. febrúar 2024 en verður endurskoðað 29. febrúar 2024 að öllu óbreyttu.
- Íbúar og starfsmenn fari inn í bæinn á eigin ábyrgð. Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi. Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í lamasessi. Stofnlögn heitavatns til bæjarins lekur, að því er talið er undir hrauni, en leitað er bilunar. Það eru tilmæli til fólks að ekki sé hróflað við stillingum heitavatns í húsum. Kalt vatn er ekki komið á og því ekkert neysluvatn. Aðstæður eru því aðrar en þær sem telja má boðlegar fyrir búsetu í húsum.
- Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirfara. Hætta er metin töluverð á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum. Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun.
- Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega. Fólk haldi sig við gangstéttir og götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
- Grindavík er lokuð öllum öðrum en íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.
Enn eru hættur á svæðinu í kjölfar eldgoss við Stóra Skógfell og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra svæða. Land rís í Svartsengi.
Gefnir verða út QR kóðar fyrir Grindvíkinga og þá sem starfa í bænum. Gert er ráð fyrir því að þeir gildi til lengri tíma en verið hefur.
Lyklar að íbúum/húsum eru í vörslu viðbragðsaðila en talið er hentugt að halda óbreyttu fyrirkomulagi vegna eftirlits með lagnarkerfum í húsum eitthvað áfram.
Lokunarpóstar verða áfram á Grindavíkurvegi, Nesvegi og Suðurstrandarvegi.
Fjölmiðlafólki verður gert kleift að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja. Sækja þarf um QR kóða.
Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settir upp þrír almannavarnalúðrar eða sírenur í Grindavík. Þá er einn slíkur við Bláa lónið og annar við orkuverið í Svartsengi.
Lögreglustjóri á ekki von á því að margir Grindvíkingar kjósi að dvelja í bænum næturlangt. Þeim er það heimilt en lögreglustjóri mælir ekki með því.
Dregið verður úr viðveru viðbragðsaðila í Grindavík en lögregla sinnir lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur.
Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/ þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni www.almannavarnir.is