Grindavík og Vogar í mestri hættu vegna hraungoss
Þóra Björg Andrésdóttir hefur lokið við ritgerð um hættumat vegna eldgosa og líklegustu staðsetningar eldsumbrota á Reykjanesi eða vesturhluta þess. Í inngangi ritgerðarinnar segir meðal annars; „Eldfjallavá er metin við eldstöðvakerfið Reykjanes út frá fyrri atburðum á svæðinu. Í ritgerðinni verður fjallað um þá vá sem fylgir eldvirkum svæðum og hvað þarf að hafa í huga við mat á eldfjallavá.“
Þau bæjarfélög sem eiga mest á hættu á að það byrji að gjósa eru Grindavík og Vogar segir Þóra en þau eru næst þeim svæðum sem gæru verið hættuleg vegna eldsumbrota. „Mesta hættan sem skapast í kringum þessi gos er hraun sem rennur, gas og ef sprungan myndi ná út í sjó, þá yrði það aska,“ segir Þóra.
Líkurnar á gosi eru meiri heldur en minni
Gosvirkni á þessu svæði hefur komið í gegnum árin og aldirnar í tímabilum, á einu tímabili hefur verið mikil eldvirkni á Reykjanesskaga og síðan hafa komið tímabil þar sem er mikil skjálftavirkni. Þóra segir að líkurnar séu núna meiri en minni að það byrji að gjósa hér á næstunni. „Þetta er hins vegar hættulegasta spurning sem þú getur spurt jarðfræðing, spurningunni eru miklar líkur á því að það fari að gjósa hér á næstunni er spurning sem er alls ekki auðvelt að svara en það eru um sjö til ellefuhundruð ár frá síðasta goshrauni og það eru sjö til tólfhundruð ár milli hrina.“
Klukkutíma viðbragðstími
Ef gos hefst á svæðinu er farið aftur yfir hættumat en Þóra á allar upplýsingar um svæðið á landfræðilegum upplýsingakerfum. „Þá myndum við taka staðsetningu skjálfta og setja það inn sem faktor í byggingunni á þessu mati mínu. Síðan væru keyrð hraunflæðilíkön á góðu hæðarlíkani til að sjá í hvað stefnir, fyrstu svæðin sem væru rýmd væru næst upptökum en það er nú yfirleitt hægt að labba frá hraungosum.“ Viðbragðstíminn frá því að gos hefst þar til að einhver hætta skapast eða annað slíkt er klukkutími að mati eldgosafræðinga en Þóra segir að þau viti það í raun og veru samt ekki fyrr en hraunið er komið upp.
Á svæðinu þar sem líkur eru á að gos muni hefjast eru fjórir farsímaturnar þar sem hraunið getur byrjað. Ljósleiðarar liggja meðfram svæðunum en að mati Þóru eru farsímaturnarnir aðal málið þar sem að mikilvægt er að geta sent skilaboð og annað til að vara við.
En Þorbjörn, er von á gosi þar í bráð?
„Nei, það held ég nú ekki,“ segir Þóra og hlær.