Grindavík: Gert ráð fyrir 296 milljóna tapi í fjárhagsáætlun
Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs Grindavíkur er áætluð 233,8 milljón kr. í tap. Vegur þar þyngst að nýr grunnskóli kemur inn í rekstur í fyrsta skipti. Auk þess lækka vaxtatekjur af bankainnistæðu verulega frá árinu 2009. Í samanteknum reikningsskilum er gert ráð fyrir tapi að fjárhæð 296,3 milljónir króna.
Fjárhagsáætlun 2010 kom til seinni umræðu á bæjarstjórnarfundi í Grindavík í gær þar sem þetta kom fram.
Heildareignir í samanteknum reikningsskilum eru áætlaðar í árslok 2010, 7.631,9 milljónir kr. Þar af er áætlað að innlán standi í 2,9 milljörðum kr. í árslok 2010.
Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 3.036,6 milljónir kr. Þar af er lífeyrisskuldbinding um 415,1 milljón króna. Langtímaskuldir eru áætlaðar 2.258 milljónir króna í árslok 2010.
Veltufé frá rekstri í samanteknum reikningsskilum árið 2010 er áætlað 186 milljónir kr.
Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er áætluð 531 milljón króna og afborganir langtímalána eru áætlaðar 250,7 milljónir króna.
Lagt er til að þjónustugjaldskrá hafnarinnar hækki um 10%. Auk þess er lagt til að hækka aflagjald úr 1,4% í 1,6% frá 1. febrúar 2010. Það var samþykkt samhljóða á fundinum í gær.
Jafnframt var samþykkt samhljóða að lækka laun bæjarfulltrúa og nefndarlaun um 10% frá og með 1. febrúar 2010.
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Grindavík.