Grindavík fyrsta sveitarfélagið til að gerast aðili að íslenska jarðvarmaklasanum
Grindavíkurbær hefur fyrst sveitarfélaga á Íslandi, gerst aðili að íslenska jarðvarmaklasanum. Á síðasta ári var stofnað til formlegs samstarfs innan jarðvarmageirans á Íslandi og jafnframt gefin út skýrslan Virðisauki í jarðvarma sem fjallar um greiningu og samstarfsmótun íslenska jarðvarmaklasans. Höfundar skýrslunnar eru Hákon Gunnarsson og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir hjá Gekon en prófessor Michael Porter og samstarsfmaður hans dr. Christian Ketels rita formála. Skýrslan byggir m.a. á kortlagningu klasans sem kynnt var á ráðstefnunni Iceland Geothermal 2010 þar sem dr. Porter var aðalræðumaður en hann er mikill áhugamaður um íslenskan jarðvarma.
Aðilar að samstarfinu í íslenska jarðvarmaklasanum eru núna orðnir 68 talsins. Vinnan hverfist kringum 10 samstarfsverkefni af ólíkum toga. Þar má nefna nýsköpunarverkefni, menntun, markaðs-mál jarðvarmans, gagnaöflun, fjármögnun, stjórnun klasans og svo mætti áfram telja. Grindavíkurbær hefur hug á að leggja til vinnu við skilgreiningu á starfsskilyrðum jarðvarmagreinarinnar gagnvart sveitarfélögum. Auk þess hafa bæjaryfirvöld áhuga á að koma að uppbyggingu Auðlindagarðsins á Reykjanesi sem er eitt af viðfangefnum klasasamstarfsins. Grindvíkingar voru frumkvöðlar í nýtingu jarðvarma á Íslandi með byggingu jarðorkuversins í Svartsengi. Frá þeim tíma hefur jarðorkan verið nýtt til ýmissa hluta allt frá húshitun til fiskeldis og ferðaþjónustu. Bláa lónið er gott dæmi um notkun jarðvarma til uppbyggingar í ferðaþjónustu.
„Megintilgangur þess að Grindavíkurbær gerist aðili að Íslenska jarðvarmaklasanum er að komast í beint sambandi við hagsmunaaðila og rannsóknariðnaðinn. Það gefur okkur tækifæri til þess að kynnast því sem hægt er að nýta og aukin tækifæri til þess að fá sprotafyrirtæki í þessum geira hingað til bæjarins. Það er von okkar að bærinn nái að marka sér þá stöðu að þegar fólk hugsar um sjávarútveg og jarðvarma sé Grindavík það fyrsta sem þeim dettur í hug," segir Guðmundur Pálsson, formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar.
Mynd: Róbert Ragnarsson bæjastjóri í Grindavík og Hákon Gunnarsson framkvæmdastjóri Gekon, f.h. íslenska jarðvarmaklasans handsala hér samstarfssamninginn.