Grindavík: Framkvæmt og fjárfest fyrir 531 milljón í ár
Gert er ráð fyrir talsverðum framkvæmdum í Grindavík á árinu, samkvæmt fjárhagsáætlun 2010 sem lögð var fram til seinni umræðu á bæjarstjórnarfundi í vikunni.
Reiknað er með ráðist verði í framkvæmdir við þriðju hæðina á Víkurbraut 63, sem m.a. hýsir bæjarskrifstofur og heilsugæslustöð. Bygging þjónustuhúss á nýja tjaldsvæðinu er einnig á dagskránni en svæðið var tekið í notkun síðastliðið vor og naut mikilla vinsælda ferðamanna í sumar. Framkvæmdir við höfnina halda áfram en gert er ráð fyrir að klára þekjuna á hinum nýja Miðgarði í sumar ásamt aðstöðu fyrir hafnarverði og vigtarmenn í nýju húsi.
Samtals munu þessir framkvæmdaliðir í fjárhagsáætluninni nema 531 milljónum króna.
Miklar framkvæmdir við endurbætur, viðhald og nýbyggingar hafa verið á vegum bæjarfélagsins síðustu ár og er skemmst er að minnast byggingu nýs grunnskóla sem tók til starfa um síðustu áramót og fékk nafnið Hópsskóli.
Bygging hins nýja Miðgarðs stórbætir aðstöðu við höfnina og á að ljúka í sumar eins og áður segir. Þá hefur íþróttahúsið og tónlistarskólinn fengið nýja klæðningu og nýtt fjölnota íþróttahús var tekið í notkun fyrir einu og hálfu ári, svo eitthvað sé nefnt.
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Grindavík.