Grindavík er með fjölmörg tækifæri fyrir framan sig
Fróðlegt verður að sjá hvernig fasteignamarkaðurinn mun þróast í Grindavík eftir hamfarirnar en dómsdagsspáfólkið spáir algeru hruni en þeir sem eru með glasið sitt hálffullt, gera ekki ráð fyrir mikilli lækkun og ekki löngu eftir að eðlilegt líf verði hafið á ný í Grindavík, verði fasteignaverð búið að ná sama stað og var áður en hamfarirnar áttu sér stað. Þeir sem eru með yfirfullt glas, gera ráð fyrir að upp sé komið frábært tækifæri fyrir Grindvíkinga, sem hafi möguleika á að hasla sér völl sem alvöru ferðamannabær og þegar það gerist, segir sagan að þá muni fasteignaverðið hækka mun meira.
Páll Þorbjörnsson er eigandi ALLT fasteignasölu, sem er með starfsstöð í Grindavík en er líka á öðrum stöðum á sv-horni landsins, sú stærsta í Reykjanesbæ. Palli sem er frá Vestmannaeyjum, hefur svipaða reynslu þaðan en hann býr í Grindavík í dag. „Ég er að skrá nýja eign í Vesturhópinu og er strax með áhugasama kaupendur. Ég mun setja svipað verð á eignina eins og var áður en hamfarirnar áttu sér stað, það er alltaf lögmál framboðs og eftirspurnar sem ræður. Ef áhugasömum kaupanda þykir verðið vera of hátt, býður hann annað hvort ekki í eignina eða býður verð sem honum þyki eðlilegt. Ef seljandinn er til viðræðna um slíkt verð og samningar takast, hefur fasteignaverðið lækkað en áður en nokkur viðskipti eiga sér stað, er ekki hægt að tala um að fasteignaverð sé búið að lækka, allt slíkt tal er óábyrgt í mínum huga. Eðlilega hefur fólk áhyggjur af eignum sínum í Grindavík en mín tilfinning er að þegar eðlilegt líf hefst á ný í bænum, verði fasteignaverðið fljótt að ná jafnvægi. Sumir munu vilja flytja frá bænum, það er bara eðlilegt og verður að sýna því fólki fullan skilning. Þá mun losna húsnæði og þá er komið fjárfestingartækifæri fyrir annan burt séð frá verði. Mín tilfinning er að að seinni partinn á næsta ári verði komið jafnvægi á markaðinn og markaður kominn á gott ról núna innan tveggja ára. Það hafa nokkrir aðilar haft samband við mig varðandi sölu á húsinu þeirra en það er eitthvað sem þarf að sjálfsögðu að bíða einhvers tíma á meðan þessi óvissa ríkir og búseta ekki heimil. Ég vona bara að yfirvöld hleypi Grindvíkingum aftur til búsetu í bænum, ef þetta á að dragast á langinn, er hætt við því að fólk skjóti rótum þar sem það er niðurkomið núna, við viljum ekki að það gerist. Sumir eru hræddir við þessar jarðhræringar og vilja þess vegna ekki flytja aftur til Grindavíkur og því verður að sýna fullan skilning, en hinir sem vilja flytja aftur en skjóta rótum annars staðar, það má ekki gerast, við verðum að gefa Grindavík tækifæri. Það verður fróðlegt hvað yfirvöld gera, orðið á götunni er að fljótlega verði barnslausu fólki sem vinnur í Grindavík, hleypt aftur til búsetu í bænum en ég er ekki sammála því og vil að við tökum skrefið alla leið. Ég á börn, því á ég sem foreldri að geta sagt mínum börnum að þau megi ekki leika sér á þeim stöðum sem þykja hættulegir, í stað þess að eitthvert yfirvald sé með forræðishyggju yfir mér? Það er höfn í Grindavík, er ekki mjög hættulegt fyrir börn að vera leika sér þar? Á að þeim sökum að banna barnafólki að búa í Grindavík? Við myndum líka ekki láta börn okkar leiga sér í 101 Reykjavík án eftirlits. Ég skil alveg áhyggjurnar en björgunarsveitarfólk er að kortleggja þessar sprungur alla daga og hættulegir staðir verða merktir kyrfilega, ég vil sjálfur fá að stjórna því að mín börn ásælist ekki slíka staði, á móti því að yfirvöld ákveði fyrir mig að mínum börnum sé ekki treystandi. Ég veit að það er þrýstingur á að opna Bláa lónið og fá starfsfólk í vinnslunar okkar en fólk á þá líka að fá að fara heim. Auðvelt og ódýrara fyrir samfélagið að láta vakta okkur meðan við sofum í okkar húsum.“
Gullið tækifæri fyrir Grindavík
Palli er einn þeirra sem er venjulega með glasið sitt barmafullt og lítur á þessar jarðhræringar í Grindavík, sem gullið tækifæri. „Nú er heldur betur tækifæri fyrir einkaaðila að leggja höfuðið í bleyti og gera spennandi hluti því Grindavík er komið á kortið frá og með 10. nóvember. Sá tími er liðinn að gestir Bláa lónsins, viti ekki að hinum megin við fjallið Þorbjörn er sjávarútvegsbær með mikla sögu. Grindavík var með alla burði til að vera mjög öflugur ferðamannabær, nú er dauðafæri á slíku. Ég trúi ekki öðru en öflugir aðilar verði byrjaðir að reisa hótel í bænum og aðrir að búa til meiri afþreyingu fyrir ferðamanninn. Það væri hægt að setja upp sýningu um jarðhræringarnar, af hverju er ekki komið flott fiskasafn í Grindavík? Auðlindasafn sem myndi pottþétt bæði laða að líffræðinga og annað fagfólk til að vinna við fagið, og sem aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamanninn. Hópsneshringurinn er stútfullur af sögu skipsskaða og í raun útgerðar á Íslandi, það er af nægu að taka í og við Grindavík. Eins verður fróðlegt að sjá hvað bæjaryfirvöld munu gera með húsin sem eru ónýt á Víkurbrautinni. Það þarf að vanda þarna til verka, ekki verður byggt aftur á sprungunni en ég vona að okkur beri gæfa til að láta eitt húsið eða fleiri standa og setja þar upp flott safn, sem myndi pottþétt laða að sér tugi, jafnvel hundruðir þúsunda gesta á hverju ári. Að labba inn í svona hús er mjög sérstök upplifun, allt vísar til hliðar og fólk fær krafta náttúrunnar beint í æð. Ef rétt verður haldið á spöðunum, er komið upp algert dauðafæri fyrir Grindavík, það er ég sannfærður um,“ sagði Palli að lokum.