Menntunarmöguleikar þurfa að endurspegla þörfina
og það fjölbreytta samfélag sem þrífst á Suðurnesjum
Stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum var til umfjöllunar á síðasta fundi bæjarráðs Grindavíkur en fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um málið.
Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni þá hefur fjölgun landsmanna undanfarin ár verið hlutfallslega mest á Suðurnesjum og langt umfram meðalfólksfjölgun í landinu. Á árinu 2018 fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 5,2% en árið 2017 var fólksfjölgunin um 7,4%. Samsetning íbúa á Suðurnesjum er einnig ólík því sem gerist í öðrum landshlutum þar sem fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn. Menntunarmöguleikar þurfa að endurspegla þörfina og það fjölbreytta samfélag sem þrífst á Suðurnesjum. Annað atriði sem taka þarf tillit til við skipulag náms á framhaldsskólastigi á svæðinu er hátt hlutfall vaktavinnufólks. Fjölbreyttar námsleiðir og sveigjanlegar kennsluaðferðir verða að vera í boði fyrir þann hóp, bæði fyrir framhaldsmenntun og símenntun.
Í ljósi þessa fagnar bæjarráð Grindavíkur og lýsir yfir ánægju sinni með framkomna þingsályktunartillögu og telur mikilvægt að tillagan verði samþykkt af Alþingi og að skipaður verði starfshópur um framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum.
Eins tekur bæjarráð Grindavíkur heilshugar undir umsögn frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.