Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grímur Sæmundsen maður ársins í íslensku atvinnulífi
Miðvikudagur 1. janúar 2014 kl. 13:40

Grímur Sæmundsen maður ársins í íslensku atvinnulífi

Grímur Sæmundsen, læknir og forstjóri Bláa Lónsins, er maður ársins 2013 í íslensku atvinnulífi, að mati dómnefndar Frjálsrar verslunar. Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn á Hótel Sögu í mánudaginn 30. desember  og afhenti Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Grími viðurkenninguna. Grímur tileinkar öllu starfsfólki Bláa Lónsins viðurkenninguna.

Í fréttatilkynningu frá Frjálsri verslun kemur fram að Grímur hlýtur þennan heiður fyrir framsækni, nýjungar í ferðaþjónustu, arðbæran rekstur til góðs fyrir íslenskt samfélag, fagmennsku, stórhug og útsjónarsemi sem gert hefur Bláa Lónið að einstæðu fyrirtæki í heiminum.

Grímur hefur af mikilli þrautseigju frá árinu 1992, eða í tuttugu og eitt ár, byggt upp Bláa Lónið sem fyrirtæki – og sem ákjósanlegan og vinsælan stað fyrir ferðamenn. Alls 635 þúsund gestir sóttu Bláa Lónið heim á þessu ári.

Nú fara um 70% erlendra ferðamanna sem koma til landsins í Bláa Lónið.
 Frá árinu 2008 hefur Bláa Lónið fest sig í sessi sem vinsælasti og mest sótti ferðamannastaður Íslands. Það er afrek og á bak við þann árangur er saga mikillar framtakssemi.

Rekstur Bláa Lónsins hefur gengið afar vel á undanförnum árum. Það skilar um 1,3 milljörðum króna í hagnað eftir skatta á þessu ári. Hagnaður árið 2012 var um 900 milljónir eftir skatta. Áætluð velta þessa árs er um 5 milljarðar króna. Eigið fé félagsins var um 1,6 milljarðar króna í lok síðasta árs. Starfsmenn Bláa Lónsins eru 240 talsins.

Bláa Lónið baðar sig í ljóma vinsælda og fjölda alþjóðlegra viðurkenninga. National Geographic hefur valið lónið sem eitt af 25 undrum veraldar.

Eiginkona Gríms er Björg Jónsdóttir. Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024