Grímur Sæmundsen heiðraður á Alþjóðadegi psoriasis
SPOEX, Samtök Psoriasis- og exemsjúklinga, veittu í dag Grími Sæmundsen, lækni og forstjóra Bláa Lónsins, viðurkenningu fyrir framlag hans til málefna psoriasissjúklinga á Íslandi. Það var Valgerður Auðunsdóttir, formaður SPOEX, sem afhenti viðurkenninguna. Í dag er alheimsdagur psoriasis.
Í dag þjást 125 milljónir manna af psoriasis. Sjúkdómurinn er ekki smitandi og tilgangur alheimsdagsins er ekki hvað síst að fræða fólk um sjúkdóminn og vinna með þeim hætti gegn fordómum gagnvart þeim er þjást af psoriasis. Alheimsdagur psoriasis var fyrst haldinn árið 2004 og hefur hann verið haldinn árlega frá þeim tíma.
Bláa Lónið hefur unnið markvisst að málefnum psoriasissjúklinga á Íslandi. Bláa Lóns meðferðin sem veitt er í Bláa Lóninu Lækningalind er einstök á heimsvísu og er aðstaða fyrir sjúklinga með því besta sem þekkist í heiminum í dag.
Auk innlendra sjúklinga hafa meðferðargestir frá 20 þjóðlöndum notið meðferðar í Bláa Lóninu. Meðferðin hefur verið kynnt erlendis m.a. í samstarfi við SPOEX, Samtök Psoriasis og Exemsjúklinga. Áhugi Gríms á Bláa Lóninu kviknaði fyrst og fremst vegna lækningamáttar Bláa Lónsins sem uppgötvaðist tiltölulega fljótlega eftir myndun þess.
Á myndinni eru Valgerður Auðunsdóttir, formaður SPOEX og Grímur Sæmundsen, læknir og forstjóri Bláa Lónsins ásamt Þóreyju Láru Halldórsdóttur. Þórey sem er fimm ára gömul er frá Skeggjastöðum í Bakkafirði hún er yngsti meðferðargesturinn á Lækningalind Bláa Lónsins og jafnframt yngsti félagsmaður SPOEX.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson