Grillaðir hamborgarar og kebab á leið til Reykjanesbæjar
Kebab á Hafnargötu - bar og borgari í gamla bankanum í Njarðvík
Talsvert að gistihúsum er að rísa á Suðurnesjum í takt við vaxandi straum ferðamanna á svæðinu. Það á einnig við um veitingastaði en tveir nýir slíkir munu opna á næstunni í Reykjanesbæ.
Fyrirhugað er að opna kebab stað við Hafnargötu 17 þar sem Olsen Olsen var áður til húsa. Lappað hefur verið upp á húsið að undanförnu og stendur til að opna staðinn innan skamms samkvæmt heimildum Víkurfrétta.
Margir hafa eflaust tekið eftir miklum framkvæmdum á Grundarvegi 23 í Njarðvík þar sem Sparisjóður Keflavíkur var áður til húsa. Þar stendur til að opna gistiheimili á öllum þremur hæðunum. Á neðstu hæðinni þar sem áður var afgreiðsla í bankanum, mun rísa bar og veitingastaður. Þar á meðal annars að bjóða upp á úrvals hamborgara ásamt fleiri veitingum. Gistiheimilið opnar fljótlega en barinn síðar í sumar.