GRÍÐARLEGUR FERÐAMANNAFJÖLDI Í GRINDAVÍK
Það var ekki aðeins Bláa Lónið sem naut gríðarlega vinsælda meðal ferðaglaðra um opnunarhelgina því mikil ásókn fólks var í sundlaugarnar í Grindavík og Vogum auk þess sem fjöldi áhorfenda að torfærukeppni Mótorsports gerði heiðarlega tilraun til að komast í Bláa Lónið að keppninni lokinni. Róbert Ragnarsson, ferðamálafulltrúi Grindvíkinga, sagði gott veður, torfærukeppnina og opnun nýja baðstaðarins við Bláa Lónið hafa dregið fjölda fólks til Grindavíkur um helgina. „Þá hefur fjöldi Íslendinga gist tjaldsvæðið í Grindavík, meira en vanalega, og eins og margir stíli upp á að tjalda hér og stunda lónið.“Guðjón Sigurðsson, forstöðumaður sundlaugarinnar í Grindavík, sagði mikið hafa verið að gera um helgina. „Uppistaðan af viðskiptavinunum var fólk sem gafst upp á því bíða í röð við Bláa Lónið. Við höfum rekið okkur á það að heimamenn eru fleiri virka daga en um helgar því Grindvíkingar virðast sækja út úr bænum um helgar. Að þessu sinni fóru 246 í laugina á sunnudeginum en laugardagurinn var eitthvað rólegri.“Sigurður Enoksson, bakari í Héraðsstubb, var einn þeirra Grindvíkinga sem hvarf úr bænum um helgina en þar var samt sem áður nóg að gera í bakaríinu. „Það var að sjálfsögðu nóg að gera við að búa til pulsubrauð fyrir Bláa Lónið. Þá þurfti bakarinn minn aðstoð við baka samlokubrauð ofan í stóran breskan ferðamannahóp. Bretarnir pöntuðu brauðið á laugardegi og komu svo á rútu og sóttu á sunnudeginum auk þess sem þeir keyptu allan sinn morgunverðarkost hér. Annars er búið að vera mikið að gera hér í bakaríinu á morgnana því túristarnir mæta staðfastlega kl. 8 til að ná í morgunverðinn.“Í sundlauginni í Vogunum fóru menn ekki varhluta af látunum við Bláa Lónið. „Á góðum, sólríkum, sunnudegi fáum við u.þ.b 60 gesti en nú urðu gestirnir 106 og höfðum við opin klst. lengur að því tilefni. Á meðal gestanna var fólk sem gafst upp á að bíða við Bláa Lónið“ sagði Sigrún Björk Stefánsdóttir sundlaugavörður.Jenný Jónsdóttir, eigandi Veitingahússins Jenný við Bláa Lónið, sagði helgina hafa verið mjög annasama. „Það var mjög mikið að gera bæði laugardag og sunnudag, bæði Íslendingar og útlendingar. Opnun nýja baðstaðarinar hefur örugglega eitthvað með þetta að gera en það hefur verið mjög mikið að gera hjá okkur í allt sumar.“