Gríðarlegt magn fíkniefna gert upptækt á Keflavíkurflugvelli
Karl og kona á þrítugsaldri, með um 36 þúsund skammta af e-töflum í farangrinum, voru stöðvuð af tollvörðum á Keflavíkurflugvelli aðfaranótt 23. mars síðastliðins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru þau einnig með mikið magn af LSD, vel yfir 4.000 skammta.
Þetta er eitt mesta smygl á e-töflum hingað til lands sem um getur og aldrei áður hefur verið lagt hald á jafnmarga LSD-skammta í einu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru fíkniefnin falin í fölskum töskubotni á stórri ferðatösku.
Voru þau bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness, karlmaðurinn í tvær vikur eða til 6. apríl nk. og konan í viku eða til 30. mars nk.
Fólkið, sem er íslenskt, var að koma með leiguflugi frá Spáni. Hafði það dvalið í viku á Las Palmas á Kanaríeyjum. Flestir farþeganna, jafnvel allir fyrir utan fólkið sem var handtekið, voru á miðjum aldri eða þaðan af eldri og er hugsanlegt að það hafi verið meðal þess sem vakti grunsemdir tollvarða og lögreglu.