Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gríðarleg eftirspurn eftir viðbótarlánum vegna íbúðakaupa
Mánudagur 16. ágúst 2004 kl. 17:56

Gríðarleg eftirspurn eftir viðbótarlánum vegna íbúðakaupa

Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir viðbótarlánum vegna íbúðakaupa í öllum byggðarlögum á Suðurnesjum það sem af er ári. Þykir það bera vitni um mikinn uppgang og hreyfingu á fasteignamarkaði í landhlutanum.

Sandgerðisbær fékk um 60 milljónir frá Íbúðalánasjóði en sá sjóður var uppurinn í júní og var því sótt um 60 milljónir til viðbótar. Sigurður Valur Ásbjörnsson, bæjarstjóri í Sandgerði sagði í samtali við Víkurfréttir að vel mætti merkja fjölgun og framþróun í bænum af ásókninni í viðbótarlánin.

Sömu sögu er að segja annars staðar en yfirvöld í Garði þurftu að sækja um 30 milljónir ofan á þær 50 sem fengust í upphafi og komast færri að en vilja.

Jón Þórisson, fjármálastjóri Grindavíkurbæjar, sagði að þar á bæ hafi þeir sótt um 60 milljónir en það hafi ekki reynst nóg. „Við gerðum ráð fyrir eilítið minni upphæð en í fyrra því að við héldum að við hefðum náð toppnum í eftirspurninni en svo reyndist ekki vera.“ Grindavíkurbær þurfti því að sækja um 30 milljónir til viðbótar.

Jóhanna Reynisdóttir sveitarstjóri í Vogum sagði í samtali við Víkurfréttir að þær 13 milljónir sem hafi verið sótt um í upphafi hafi klárast í endaðan mars og 15 milljónir hafi verið fengnar til að svara eftirspurn. „Það virðist vera sama hvað er boðið upp á mikið,“ sagði Jóhanna að lokum. „Þetta rennur allt út strax.“

Ískyggilegast virðist ástandið þó vera í Reykjanesbæ er þar voru um 300 milljónir haldbærar fyrir árið en þeim hafði öllum verið úthlutað í byrjun sumars. Reykjanesbær sótti um 100 milljónir til viðbótar en fengu aðeins úthlutað 25 milljónum. Möguleiki er þó á því að meira fáist eftir því sem líða tekur á árið vegna þess að þá gæti fé sem önnur sveitarfélög hafa ekki ráðstafað ratað hingað suður eftir.

Af þessum tölum að merkja er erfitt að sjá hvert allt svartsýnistal varðandi framtíð Suðurnesja er sótt. Fólk sækir fast í búsetu á svæðinu og þá hljóta þeir einstaklingar að sjá atvinnutækifæri og margvíslega möguleika.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024