Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grétar Mar vill aftur á þing - genginn til liðs við Flokk fólksins
Grétar Mar í brúnni en þar hefur hann verið í áratugi af sinni ævi. Nú vill hann komast aftur á þing.
Fimmtudagur 14. janúar 2021 kl. 06:10

Grétar Mar vill aftur á þing - genginn til liðs við Flokk fólksins

Sandgerðingurinn Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi þingmaður og varaþingmaður í Suðurkjördæmi hefur gengið til liðs við Flokk fólksins og stefnir á framboð fyrir hann í Suðurkjördæmi. „Ég ætla að fara að skipta mér af þessu aftur. Það er margt sem þarf að laga í samfélaginu okkar og margt sem brennur á mér,“ segir Grétar sem var varaþingmaður Frjálslynda flokksins í kjördæminu 2003-2007 og svo þingmaður frá 2007 til vors 2009 þegar bankahrunið varð.

„Málefni eldri borgara og auðvitað sjávarútvegurinn,“ segir hann aðspurður um hvað það sé helst sem hann hafi áhuga á að berjast fyrir komist hann á þing á nýjan leik. „Ég er orðinn 65 ára sem er náttúrulega enginn aldur en það gengur ekki hvað það er illa farið með eldra fólk á Íslandi. Hvernig má það til dæmis vera að fólk eldra en 67 ára megi ekki vera á vinnumarkaðinum nema þola skerðingar á lífeyri. Það gengur auðvitað ekki.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grétar Mar var lengi sjómaður og skipstjóri frá Sandgerði en hann gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn árið 2002. Sjávarútvegurinn var einn af þeim málaflokkum sem lögð var áhersla á þar og það er eitt af því sem Grétar Mar vill gera á Alþingi, komist hann þangað aftur. „Ég fór aftur á sjóinn eftir þingveruna árið 2009 en hætti fyrir sjö árum. Ég er þó að vinna í sjávarútvegi og hef haft gaman af. Það þarf samt að laga margt í greininni á Íslandi. Ástandið er hroðalegt. Allur arður fer til nokkurra fjölskyldna. Það gengur ekki. Það má ekki gleyma því að sjávarútvegur var í margar aldir það sem byggði upp samfélagið á Íslandi eða þangað til ferðamenn fóru að koma til Íslands. Nú eru þetta nokkrir aðilar sem drottna yfir þessu og ráða öllu. Við þurfum m.a. nýja stjórnarskrá til að gera breytingar í sjávarútveginum. En auðvitað margt annað sem þarf að gera til að bæta margt hér á landi,“ segir Grétar Mar sem hefur síðustu árin búið í Hafnarfirði. Hann segir þó hjarta sitt alltaf slá á Suðurnesjum en hann var í þrjátíu ár í hafnarstjórn í Sandgerði. Þá var Grétar bæjarfulltrúi í Sandgerði árin 1982 til 1990.