Grétar Einarsson endurlífgaður á knattspyrnumóti
Grétar Einarsson, gamalkunnur knattspyrnumaður úr Garðinum, sem lék til fjölda ára bæði með Víði í Garði og eins Grindavík, getur þakkað réttum og fumlausum viðbrögðum tveggja slökkviliðsmanna á mótinu að hann er á lífi í dag. Grétar var þátttakandi í firmakeppni í knattspyrnu sem knattspyrnudeild Grindavíkur og Lýsi hf. héldu í Grindavík daginn fyrir gamlársdag. Mótið var rétt byrjað þegar Grétar hné niður. Í fyrstu virtist sem Grétar hafði fengið aðsvif eða flog en fljótlega kom í ljós að atvikið var alvarlegra.
Karl Daníelsson hjá Öryggisþjónustu Grindavíkur skrifar um atvikið pistil inn á vef öryggisþjónustunnar og lýsir því sem hann varð vitin að og ekki síst því hversu nauðsynlegt það sé að menn hafi þekkingu til að takast á við atvik sem þessi.
Karl lýsir atburðarásinni þannig að fyrstur til að sinna Grétari hafi verið starfsmaður Slökkviliðs Keflavíkurflugvallar sem var að keppa á knattspyrnumótinu. Honum til aðstoðar kom síðan rafvirki og slökkviliðsmaður í Grindavík. Þegar var kallaður til sjúkrabíll og Grétar var settur í læsta hliðarlegu því í fyrstu var haldið að hann hefði fengið flog. Fljótlega hafi menn hins vegar áttað sig á því að þetta var ekki flog og þá var byrjað að hnoða og hnoða og starfsmenn íþróttahússins náðu í hjartastuðtæki sem er í húsinu.
Svo segir Karl í grein sinni: „Davíð og Sigurður [slökkviliðsmennirnir] stjórnuðu aðgerðum, stuðtækið var gert klárt á þeim tímapunkti var líf einstaklingsins að fjara út og var hann orðinn helblár og liturinn að breytast yfir í að vera grár...menn gerðu allt klárt til að skjóta stuði...sem og var gert....og þá tók hjartað við sér og líf kviknaði að nýju...liturinn breyttist þegar hjartað dældi blóði um líkamann....á þessum tímapunkti komi sjúkrabíll og starfsmenn slökkviliðsins og tóku við. Þetta er einhver sú stórkostlegasta stund sem ég hef orðið vitni af að sjá líf fjara út og koma svo til baka með þessum hætti eins og það gerðist hreint út stórkostlegt“.
Karl segir þá sem stjórnuðu aðgerðum hafa unnið þarna þrekvirki ásamt því fólki sem tók þátt í þessari björgun. Það sem skipti sköpum í þessari aðgerð voru fyrstu viðbrögð, fyrstu sekúndurnar og fumlaus stjórnun í alla staði.
„Það sýnir sig best hvað við búum vel að eiga svona einstaklinga að sem vita nákvæmlega hvað á að gera á stundu sem þessari,“ segir Karl.
Þegar Grétar rankaði við sér aftur með súrefnisgrímuna á andlitinu heimtaði að fá að klára að spila mótið. Hins vegar var farið með hann á sjúkrahús þar sem honum heilsast vel. Grétar mun gangast undir hjartaþræðingu.
Karl Daníelsson var að senda firmamótið úr í beinni útsendingu á vef UMFG þegar atvikið átti sér stað. „Þetta er klárlega eitt af því sem kemur til með að standa upp úr í mínu lífi að verða vitni að þessu,“ segir hann í greininni sem hann skrifaði eftir atvikið og bætir við: „Í dag naga ég mig í handabökin að hafa slökkt á upptökuvélinni. Það hefði verið gaman að eiga þetta og leyfa öðru fólki að sjá handbrögð og þetta kraftaverk sem átti sér stað þarna“.
Efri myndin:
Grétar Einarsson kaupir landsliðstreyju til styrktar Frank Bergmanni í Grindavík sl. sumar. Karl Daníelsson er á minni myndinni.