Greiða allt að 360.000 kr. úr eigin vasa á mánuði
– Finnbogi Björnsson, framkvæmdastjóri DS, í viðtali
Þeir sem safna sér talsverðum lífeyrissjóði á lífsleiðinni taka talsverðan þátt í dvalarkostnaði sínum þegar sú stund kemur að viðkomandi þarf að flytja á hjúkrunarheimili. Fólk getur þurft að borga með sér 350-360 þúsund krónur á mánuði ef fjárhagur þess er þannig. Það finnist mörgum ekki sanngjarnt. Þetta segir Finnbogi Björnsson, framkvæmdastjóri Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum [DS] í viðtali við Víkurfréttir.
Finnbogi segir að fólk hafi alla tíða átt erfitt með að sætta sig við þessa staðreynd.
„Það leiðinlega sem okkur varðar sem rekstraraðila er að við fáum pappíra sem segja, þú átt að innheimta þetta mikið hjá þessum aðila. Síðan eigum við að skila þessu til Tryggingastofnunar. Ef að við náum ekki þessum fjármunum frá heimilisfólkinu, þá draga þeir það frá daggjöldunum næsta mánuð á eftir. Við höfum ekkert með þessa peninga að gera annað en að innheimta þá. Eins og vel er hægt að ímynda sér, þá er ekki alltaf skemmtilegt að rukka fólk um fleiri hundruð þúsund, vegna þess hversu góðan lífeyri það hefur unnið sér inn,“ segir Finnbogi m.a. í viðtalinu við Víkurfréttir.