Greiða 10,8 milljónir vegna skuldahalla BS
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs hefur samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun síðasta árs sem gerir ráð fyrir að sveitarfélagið greiði sinn hluta í uppsöfnuðum halla Brunavarna Suðurnesja, BS.
Uppsafnaður halli af rekstri BS undanfarin allnokkur ár er 132 milljónir króna og stendur sú fjárhæð sem skuld hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, SSS. Eigendasveitarfélög Brunavarna Suðurnesja; Reykjanesbær, Vogar og Garður, samþykktu að gera skuldina við SSS upp fyrir síðustu áramót, með sérstöku skammtímaláni.
Hlutdeild Garðs er kr. 10,8 milljónir króna og fyrir liggur samþykki bæjarstjórnar fyrir uppgjöri á þeirri fjárhæð.