Grænir fingur í Aragerði í Vogum
Í gær gróðursettu fulltrúar frá hvatafélaginu Á-Vexti í samvinnu við íbúa í Vogunum eplapar, þ.e. tvö eplatré hvort af sínu yrki og tvö kirsuberjatré sem sveitafélagið lagði til í Aragerði, skrúðgarði sveitarfélagsins en sífellt færist í aukana að fólk sé að gróðursetja slíkum trjám.
Ef allt fer að óskum ættu gestir og gangandi að geta tínt ber, epli og perur í Aragerði í Vogum á komandi árum en dæmi eru um að eplatré hérlendis hafi borið allt að 800 ávexti í fyrra haust.
Vogabúar mættu vel í Aragerði og tóku með sér skóflur og gróðursettu ungir jafnt sem aldnir. Ljósmyndari Vikurfrétta mætti í skjólsælt Aragerðið og smellti nokkrum myndum af grænum fingrum.
Á-Vöxtur er hvatafélag um ræktun ávaxtatrjáa á Íslandi. Eplasjóður Á-Vaxtar hefur m.a. styrkt eftirfarandi verkefni með eplapörum: Reykjavíkurborg (eplapar á Klambratúni); Leikskólinn Nóaborg; Rannsóknarstöð skógræktar ríkisins að Mógilsá og gróðrarreitinn við Safnasafnið á Svalbarðsströnd. Framundan eru fleiri slík verkefni.
VF-Myndir: Eyþór Sæmundsson