Grænfánaskólar í Garði
Gerðaskóli og leikskólinn Gefnarborg í Garði drógu Grænfána að húni sl. laugardag við hátíðlega athöfn á vorhátíðum skólanna. Grænfáninn er alþjóðlegt merki um gott umhverfisstarf og umhverfisfræðslu í skólum en nemendur og allt starfsfólk skólanna hafa undirritað umhverfissáttmála auk þess sem umhverfisstefna þeirra var kynnt íbúum nýverið.
Skólarnir í Garði hafa með þessu náð langþráðu markmiði sem rúmlega 21.000 skólar í 43 löndum keppa að en rúmlega 7000 skólar hafa náð, segir í tilkynningu Landverndar til sveitarfélagsins. Þar segir einnig að í framhaldi af hugsjónarstarfi og mikilli vinnu hafi skólarnir náð að uppfylla nauðsynleg skilyrði til að fá að flagga Grænfánanum, en Landvernd stýrir Grænfánaverkefninu á Íslandi.
Bergur Sigurðsson framkvæmdarstjóri Landverndar og Rannveig Thoroddsen verkefnisstjóri afhentu umhverfisnefndum skólanna grænfána en Oddný Harðardóttir bæjarstjóri Garðs dró fánana að húni með dyggri aðstoð nemenda.