Grænásgatnamótin verði ekki umferðartappi á Ljósanótt
Ljóst er að ekki tekst að ljúka að fullu framkvæmdum við Grænásgatnamótin fyrir komandi Ljósanótt. Rík áhersla er þó lögð á að ekki myndist umferðartappi við gatnamótin þegar gestir hátíðarinnar fara þar um þúsundum saman líkt og gerðist á sínum tíma þegar unnið var við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.
Þessa dagana er unnið við gerð hringtorgs á gatnamótunum en mikill þrýstingur hefur verið samgönguyfirvöld um úrbætur á þessum stað vegna mikillar slysahættu.
Vegagerðin annast hönnun og frágang á verkinu sem unnið er í samstarfi við Reykjanesbæ. Fyrsta hluta framkvæmda átti að ljúka um miðjan ágúst en lokafrágangi um miðjan september. Af ýmsum ástæðum hefur verkið tafist. Að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra Umhverfis- og skipulagssviðs bæjarins, er ljóst að ekki næst að ljúka verkinu fyrir Ljósanótt. Þó sé stefnt sé að því að gatnamótin verði ekki flöskuháls þegar Ljósanótt gengur í garð.
„Reynt verður að hafa sem minnst rask á vegakerfinu á meðan verkinu stendur. Reykjanesbraut mun t.d. aldrei lokast, heldur verður þetta unnið þannig að dregið verður úr hraðanum og verkinu skipt í tvo helminga. Hins vegar verður einhver truflun upp á Ásbrú í gegnum Grænásbraut - en reynt verður að halda því í lámarki,“ sagði Guðlaugur í samtali við VF.
---
VFmynd/elg – Vegfarendum er bent á að fara varlega framhjá vinnusvæðinu við Grænásgatnamótin.