Grænásgatnamótin: Reykjanesbær krefst aðgerða strax
Bæjarráð Reykjanesbæjar gagnrýnir að enn skuli því frestað að bæta öryggi vegfarenda um hin illræmdu Grænásgatnamót þar sem mörg umferðarslys hafa orðið. Bæjarráð segir það framlag sem ætlað til verkefnisins samkvæmt samgönguáætlun alls ekki duga til nauðsynlegra framkvæmda og krefst aðgerða strax.
„Reykjanesbær hóf baráttu fyrir öruggum gatnamótum Reykjanesbrautar/Grænásbrautar árið 2007 þegar fyrrum varnarsvæði var tekið yfir við brotthvarf Varnarliðsins. Samkvæmt samgönguáætlun frestast enn að tryggja öryggi vegfaranda bæði gangandi og akandi, en um 1700 manns búa nú á svæðinu, þar af hátt hlutfall barna, sem þurfa að sækja þjónustu yfir Reykjanesbraut. Óviðunandi er að gangandi og hjólandi vegfarendur innan Reykjanesbæjar þurfi að fara yfir eina fjölförnustu hraðbraut landsins á leið sinni milli íbúðahverfa.
Gert er ráð fyrir aðeins 65 millj. framlagi til verkefnisins á Samgönguáætlun á árinu 2010 og 80 millj. árið 2011. Þetta framlag mun alls ekki duga til nauðsynlegra framkvæmda á svæðinu auk þess sem enn er dregið að framkvæma. Reykjanesbær krefst aðgerða strax,“ segir í athugasemdum bæjarráðs frá fundi þess í morgun þar sem þingályktunartillaga um fjögurra ára samgönguáætlun var til umfjöllunar.
Í athugasemdunum segir ennfremur að Reykjanesbær hafi ítrekað óskað eftir framlögum til framkvæmda í Helguvík, vegna hafnarframkvæmda tengdum álveri og öðrum stórum atvinnutækifærum sem ríkisstjórnin treysti á að verði að veruleika, samkvæmt þjóðhagsspá. Engu að síður sé hvergi getið um framlög ríkisins til verkefnisins í samgönguáætlun, eða lagasetningu því til stuðnings.
Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingar og fyrrum aðstoðarmaður Samgönguráðherra skrifar grein vegna málsins hér á vef Víkurfrétta í gær, sjá hér
--
VFmynd/elg - Frá vettvangi slyss á Grænásgatnamótunum.