Grænásgatnamótin: Hátt í 1,200 manns skora á samgönguyfirvöld
Síðan á föstudaginn hafa 1,170 manns sett nafn sitt Facebook síðu þar sem skorað er á Vegagerðina og samgönguyfirvöld að grípa tafarlaust til ráðstafana í því skyni að auka umferðaröryggi á Grænásgatnamótunum. Þar varð enn eitt umferðarslysið síðastliðinn föstudag þegar þrír bílar skullu harkalega saman. Slys urðu á fólki.
Fjöldi umferðarslysa, sum alvarleg, hafa orðið á umræddum gatnamótum og er greinilegt á þeim ummælum sem fólk setur á síðuna að því finnst löngu tímabært að gripið verði til ráðstafana.
Að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, framkvæmdarstjóra Umhverfis og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, hafa fulltrúar bæjarins lagt fram hugmyndir um lausn á þessum gatnamótum og hefur Vegagerðin tekið vel í þær en vissulega hefði málið mátt ganga hraðar. Fjölmargir fundir hafi verið haldnir um málið og nú síðast skömmu fyrir slysið á föstudag. Guðlaugur segir að eftir það slys hafi hann farið fram á það við Vegagerðina að gatnamótin yrðu a.m.k merkt sem „hættuleg gatnamót“ til að byrja með en nauðsynlegt sé að fara strax í framkvæmdir á varanlegri lausn.
Reykjanesbær hefur farið fram á að hringtorg verði gert á gatnamótin ásamt undirgöngum fyrir gangandi vegfarendur. Þá hefur bærinn jafnframt lagt fram tillögu um úrbætur við Stekk til að bæta umferðaröryggi þar.
Guðlaugur segist vona að þessar framkvæmdir fari í útboð fljótlega, en þangað til verði að knýja um um áðurnefndar merkingar. Ekki sé síður nauðsynlegt að biðja ökumenn um að fara með gát. Rétt sé að benda á að í flestum tilfellum verði slysin með þeim hætti að ökumenn virði hvorki hámarkshraða né stöðvunarskyldu á Grænásbraut.
Þess má geta að móðir ungrar konu sem lenti í óhappinu á föstudaginn vildi koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra sem komu að slysinu og hlúðu að dóttur hennar. Hún var m.a. vafinn inn í ábreiðu. Móðirinn vill koma ábreiðunni til skila og biður viðkomandi að hafa samband í síma 896 5192.
Facebook síðuna með áskoruninni má sjá hér:
-----
VFmynd/elg - Frá slysinu á föstudag. Fólki finnst nóg vera komið.