Grænásbúar þreyttir á órækt
Íbúar við Grænás í Reykjanesbæ hafa gert athugasemdir við vinnubrögð bæjarins við hirðu og fegrun á grassvæðum í hverfinu. Segja þeir að mikil órækt sem hafi verið viðvarandi á túnunum allt frá því að sláttur var boðinn út fyrir þremur árum sé til þess fallin að letja íbúa hverfisins til að hirða um sínar eigin lóðir.
Íbúi sem hafði samband við Víkurfréttir sagði forsvarsmenn bæjarins hafa komið upp í hverfið í fyrrasumar og þá lofað bót og betrum en ekki hafi verið staðið við stóru orðin.
Viðar Már Aðalsteinsson, forstöðumaður Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, sagði þjónustumiðstöð bæjarins reyna að gera öllum hverfum jafn hátt undir höfði og sláttur hefjist í Grænáshverfinu á næstunni.
Annað atriði sem íbúar hverfisins segjast hafa bent bæjaryfirvöldum á er skortur á hraðahindrun á Grænásvegi þar sem stundaður sé mikill hraðakstur. Viðar Már sagði að þau mál yrðu skoðuð ofan í kjölinn en málið væri erfitt að því leyti að vegurinn væri aðalæð þungaflutninga niður í bæinn. Þyrftu því að vera sem minnstar hömlur á umferðinni, en málin yrðu skoðuð ofan i kjölinn.
VF-mynd/Þorgils: Íbúar í Grænási eru orðnir langþreyttir á óræktinni á bæjartúnunum í hverfinu.