Gosvirkni ekki orðið vart í jarðskjálftum á Reykjaneshrygg
Um miðjan dag í gær, þriðjudaginn 10. maí, hófst jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg um 200 - 300 km suður af Reykjanestá. Fyrsti skjálftinn mældist kl. 14:30 af stærð u. þ. b. 3,5 og staðsetningin nálægt 62°N og 25°V. Milli kl 16:30 og 18 varð önnur hrina þar sem stærsti skjálftinn mældist um 4. Um kl. 21:12 hófst þriðja hrinan, sem stóð í um 40 mín og mælast nokkrir skjálftar á því tímabili allt að 5 af stærð.
Upp úr miðnætti eykst virknin aftur og virðist ná hámarki um kl. 7 í morgun, miðvikudaginn 11. maí. Skjálftar í nótt hafa stærstir verið um 4,5 - 5.
Virknin er enn í gangi, en ekki er að sjá gosvirkni í gögnunum, segir Steinunn S. Jakobsdóttir, deildarstjóri eftirlitsdeildar Veðurstofu Íslands á vef Veðurstofunnar. Virknin er það langt frá landinu að íslenska kerfið staðsetur ekki skjálftana af mikilli návæmni, þó að virknin sjáist mjög vel hér. Upplýsingar um skjálftana má einnig finna á vefsíðum EUROPEAN-MEDITERRANEAN SEISMOLOGICAL CENTRE:
http://www.emsc-csem.org/
Á sjálfvirku skjálftakortunum á vef Veðurstofunnar virðist skjálftavirknin ganga á land á Suðurlandi. Þetta er ekki rétt, vegna hinnar miklu virkni suður á hrygg reynir sjálfvirka skjálftakerfið að staðsetja virknina nær landi, en allir þessir skjálftar færast suður á bóginn við nánari skoðun.
Myndin: Skjálftakort Veðurstofu Íslands sem er unnið með handvirkum hætti og sýnir betur hvar raunveruleg upptök skjálftanna eru. Sterkustu skjálftarnir voru 4,5 til 5 að styrkleika. Skjálftahrinan stendur ennþá yfir þegar þetta er skrifað.