Gossvæðið í Meradölum lokað fyrir aðgangi almennings á morgun
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur gefið út að gossvæðið í Meradölum verði lokað fyrir aðgangi almennings frá klukkan fimm í fyrramálið, sunnudag.
Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun og segir í tilkynningu frá veðurstofunni að vindur verði suðaustan 13–18 m/s. Hvassast við fjöll og á Reykjanesskaga. Talsverð eða mikil rigning og lélegt skyggni. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og einnig fyrir gangandi og hjólandi ferðalanga. Ekkert ferðaveður verður á gossvæðinu á meðan viðvörunin er í gildi.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur því tekið ákvörðun um að gossvæðið í Merardölum verði lokað fyrir aðgangi almennings frá kl. 05:00 í fyrramálið, sunnudag, og verður staðan endurmetin seinnipartinn á morgun, sunnudag. Fjölmiðlar munu verða upplýstir um framhaldið þegar staðan hefur verið endurmetin.