Gosmökkur sést frá Reykjanesbæ - myndir
Eldgosið hefur verið stöðugt í dag, mökkurinn rís í 6-9 km hæð og leggur til suðurs. Hann sást vel frá Reykjanesbæ nú undir kvöld. Það gýs úr eins km langri sprungu sem liggur frá norðri til suðurs í suðvesturhluta toppgígsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð.
Þar kemur fram að um 100-150 milljón rúmmetrar af ís hafa bráðnað í öskjunni en það er á milli 10 og 15% af þeim ís sem þar er. Sigkatlar í ísnum eru það stórir að gjóska er farin hlaðast upp í gíg sem einangrar ís frá kvikurásinni. Lítill ís virðist vera að bráðna en nægt vatn kemst samt að kvikunni til að sprengivirkni haldi áfram.
Gott veður er á Suðurlandi og gott útsýni til gosstöðvanna. Mikil öskumyndun hefur verið og tilkynningar hafa borist um mikið öskufall undir Eyjafjöllum. Um tíma var öskufall svo mikið á svæðinu frá Núpi að Skógum að ekki sást á milli stika. Ekkert flóð hefur komið frá jöklinum síðasta sólarhringinn.
Í kvöld er gert ráð fyrir norðvestanátt en vestan og suðvestan átt, 5-13 m/sek á morgun sunnudag. Búast má við öskufalli frá Austur Eyjafjöllum austur að Mýrdalssandi, en að öllum líkindum verður öskufall mest í námunda við Mýrdalsjökul.
Myndir: Gosmökkurinn séður úr hlíðum Grænáss í Reykjanesbæ. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson