Gosið í Geldingadal kjöraðstæður fyrir dyngjur
Enn eru allar aðstæður réttar til að eldgosið í Geldingadölum verði að dyngjugosi. Þá líkis kvikan sem kemur upp í Geldingadölum þeirri kviku sem er í stærri dyngjunum á Reykjanesskaganum. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í berg- og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, samtali við mbl.is nú í kvöld.
Aðspurður hvenær gosið muni fylla Geldingadali segir Þorvaldur:
„Ég var búinn að slá gróflega á það, það fer eftir hve framleiðnin er mikil, það er hve flæðið er mikið frá gígunum á tímaeiningu. Ef við miðum við að það sé fimm rúmmetrar á sekúndu sem er að koma núna upp úr gígunum, þá ætti það að öllu óbreyttu að ná lægstu þröskuldunum á um það bil tuttugu dögum. Gæti verið aðeins lengur, um þrjátíu dagar, en það er sko tímaskalinn. Ef flæðið eykst þá náttúrulega styttist tíminn en ef það minnkar þá hugsa ég að það stoppi.“
Haldi gosið áfram mun það taka mánuði og jafnvel ár að komast niður að Suðurstrandarvegi á leið sinni til sjávar.
Þorvaldur segir að lokum að vísbendingar séu til staðar um að við séum að horfa fram á langvinnt gos. Hann segir sterkustu vísbendinguna vera þá að kvikan komi beint djúpt að og að innflæðið inn í aðflæðiæðina virðist vera nokkurn veginn það sama og útflæðið úr gígnum.
„Þannig að við erum með stöðugt ástand, sem eru kjöraðstæður fyrir dyngjur.”
Hér má lesa viðtalið við Þorvald á vef mbl.is.