Goshlé í Fagradalsfjalli?
Svo virðist sem að verulega hafi dregið úr krafti eldgossins í Fagradalsfjalli nú síðdegis. Nokkur kraftur var í gosinu á meðan fulltrúar Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands voru á svæðin upp úr hádegi í dag. Eftir því sem leið á daginn virðist hafa lækkað í hrauntjörninni samhliða því að óróagröf Veðurstofunnar fóru að sína afmarkaða púlsa í virkninni. Þetta kemur fram í færslu á fésbókarsíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands rétt í þessu.
„Nokkuð þétt þoka hefur lagst yfir gosstöðvarnar og sést því ekki inn í gíginn. Áður en þokan skall á sást hinsvegar ekkert hraunrennsli frá gígnum, sem er til marks um lækkað yfirborð hrauntjarnarinnar. Skjáskot af vefmyndavél RÚV sýndi hinsvegar að enn var bráð í gígnum kl. 19.30, en án rennslis á yfirborðinu.
Skjáskotið af óróagrafi Veðurstofunnar í Grindavík sýnir aftur á móti afar lítinn óróa eftir kl. 19.30 (sléttar línur). Samfelldur órói var framan af morgni, en hann varð hryðjóttur um miðjan dag. Mjög daufir púlsar síðustu 2 tímana gætu þó bent til þess að enn skvettist í hrauntjörninni. Því er óvissa þessa stundina hvort goshlé sé hafið, en það mun vonandi skýrast um leið og þokuna léttir,“ segir í færslunni.