Gönguleið að gosstöðvum stikuð frá Suðurstrandarvegi
Síðdegis í gær, mánudag, fór tíu manna hópur frá Björgunarsveitinni Þorbirni í stikuferð upp á Fagradalsfjall í brjáluðu veðri og verkefninu lauk á mánudagskvöld. Nú er hægt að ganga stikaða slóð frá Suðurstrandarvegi að gosstöðvunun á mjög þæginlegan máta og tekur um eina og hálfa klukkustund fyrir vel búið fólk að ganga þá leið en hún er um 3,5 km eða 7 km fram og til baka.
„Að gefnu tilefni viljum við biðja fólk um að fara varlega, fylgjast með veðurspá og vera vel útbúin. Nú þegar það lægir vind má búast við mikilli gasmengun í kringum gosið. Það er vegna þess að gígurinn er í mikilli lægð og þegar vindurinn blæs ekki gasinu frá leggst það ofan í lægðina. Að endingu viljum við vinsamlegast biðja fólk um að vera ekki að ganga ofan á nýja hrauninu, það er einfaldlega stórhættulegt,“ segir í tilkynningu frá Þorbirni.
Myndirnar voru teknar af ljósmyndara Slysavarnafélagsins Landsbjargar þegar leiðin að gosstöðvunum var stikuð.