Göngu- og neyðarleið lagfærð alla leið að gosstöðvunum
Göngu- og neyðarleið hefur nú verið lagfærð alla leið að gosstöðvunum í Meradölum og því orðin mun greiðfærari. Gestum á svæðinu hefur fækkað mikið og um 1000-1500 manns koma nú daglega á svæðið, en voru áður 3000-4000. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu um eldgosið frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
„Þar af leiðandi hefur dregið úr veru viðbragðsaðila og vinnur nú lögreglufólk og sjúkraflutningamaðu á svæðinu. Björgunarsveitir vinna með þeim fram yfir helgi til að tryggja yfirfærslu verkefna og verklags. Frekari aðkoma björgunarsveita að eftirliti og gæslu verður metin í næstu viku, þ.e. annarra verkefna en beinnar leitar og björgunaraðgerða,“ segir jafnframt í skýrslunni.
Áfram er unnið að áætlunum fyrir Reykjanesskaga í heild með tilliti til þess að líklega sé um langtíma jarðhræringar að ræða. Gosórói minnkaði töluvert um helgina og féll síðan alveg niður á sunnudagsmorgun. Síðan þá hefur engin virkni verið sjáanleg í gígnum eða á svæðinu. Talið er líklegt að gosinu sé lokið en þó er enn of snemmt að segja til um það. Starfað er á hættustigi Almannavarna.