Göngu- og hjólastígur frá FLE til Eyjavalla
Hugmynd að nýta gamlan slóða.
Reykjanesbær hefur hafið undirbúning á gerð göngu og hjólastígs frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að stígakerfi Reykjanesbæjar. Vegagerðin hefur tekið vel í að verkið verði unnið og hefur Reykjanesbær sent inn formlega ósk við Vegagerðina að hefja frumhönnun. Um er að ræða stíg þar sem gert verður ráð fyrir bæði gangandi og hjólandi vegfarendum og mun ná frá suðurhlið Flugstöðvarinnar inn á Eyjavelli í Reykjanesbæ.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar er einn stærsti vinnustaður á Suðurnesjum og þar vinna um 750 manns bæði í dag- og vaktavinnu. Góðar samgöngur á þennan fjölmenna vinnustað eru því mjög mikilvægar. Í skoðun er einnig að bæta strætóleið frá miðstöðinni á Kjarna og upp í flugstöð. Með því að tengjast samgöngumiðstöð við Kjarna opnast tenging um allt bæjarfélagið.
Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, segir að hugmyndin sé meðal annars að nýta gamla slóða um Rósaselsvötn inn á Vesturgötu og þaðan inn á stígakerfið á Rómantísku leiðinni. „Auk þess er gert ráð fyrir því að merkja leið niður Vesturgötu inn á Strandleiðina. Þessi stígur mun ekki einungis verða mikil samgöngubót fyrir starfsmenn sem vinna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar heldur mun þetta einnig stórbæta öryggi þann fjölda ferðarmanna sem dag hvern kemur til og frá Flugstöðinni og hjólar Reykjanesbrautina til Reykjavíkur. Með þessu fara ferðarmenn um stíginn inn í Reykjanesbæ. Með strandleiðinni opnast hjólaleið, sem reyndar þarf að bæta alla leið upp á Stapa. Þaðan mætti svo hugsa sér áfanga tvö, sem væri þá tenging við Sveitarfélagið Voga. Stígurinn mun fara á nýtt endurskoðað aðalskipulag í Sveitafélaginu Garði en hann er nú þegar á skipulagi Reykjanesbæjar,“ segir Guðlaugur.