Gómaði skemmdarvarga á náttfötunum!
Nokkur ungmenni gerðu það að leik sínum að hoppa á vélarhlífum og toppum bifreiða í Keflavík fyrir helgi. Íbúi í Holtunum í Keflavík varð var við ungmennin við iðju sína og ákvað að taka til sinna ráða.Hljóp hann út úr húsi sínu og náði að handsama einn af skemmdarvörgunum og halda þar til lögreglan kom á vettvang. Maðurinn sem handsamaði skemmdarvarginn var á náttfötunum og þótti sýna röggsemi enda málið grafalvarlegt. Skemmdir á bílunum er taldar nema nokkur hundruð þúsundum króna og því ljóst að vafasöm skemmtun unglinganna gæti reynst þeim dýr.