Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Golfvöllurinn á Ásbrú stækkaður í níu holur
Séð yfir hluta golfvallarins á Glompuhæð. Mynd af fésbókarsíðu Flugakademíu Keilis.
Föstudagur 10. maí 2013 kl. 10:03

Golfvöllurinn á Ásbrú stækkaður í níu holur

Undanfarin ár hefur kylfingum staðið til boða sex holu golfvöllur sem staðsettur er á Glompuhæð (Bunker Hill) á Ásbrú. Golfvöllurinn er í eigu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (KADECO) en umsjón vallarins hefur verið á vegum Lauftækni ehf., sem er fyrirtæki í eigu Einars Friðriks Brynjarssonar umhverfisiðnfræðings og skrúðgarðyrkjumeistara. Lauftækni ehf. er til húsa í fyrirtækjahótelinu Eldvörpum á Ásbrú og annast umsjón og ráðgjöf þegar kemur að umhverfis-, garðyrkju- og sérfræðiþjónustu.

Nú stendur til að stækka golfvöllinn úr sex í níu holur og verður völlurinn samstarfsverkefni KADECO, Lauftækni ehf. og Golfklúbbs Suðurnesja en golfklúbburinn hefur séð um slátt og viðhald á vellinum frá upphafi.

Í samtali við blaðið segir Einar Friðrik að við stækkunina sé reynt að nýta alla þá vinnu sem áður hefur verið lagt í á svæðinu og nýta það landslag sem er á staðnum. Golfvöllurinn stendur á svæði þar sem áður var íbúðabyggð hjá Varnarliðinu og svokallað Kína-hverfi stóð. Miðað er við að halda öllum kostnaði við golfvallargerðina í lágmarki en með réttri umhirðu á grasi og með því að bera á, sanda og gata rétt, þá megi gera ágætan æfingagolfvöll sem verður betri með tímanum.

Einar segir verkefnið vera skemmtilegt. Það hafi gengið vonum framar að móta golfvöllinn á þessu svæði og hann verði hægt að leika í sumar þó svo nýjustu flatirnar verði ekki góðar í sumar en þó vel leikhæfar.

Aðstandendur golfvallarins eru einnig ánægðir með hvað sex holu völlurinn hefur verið vel sóttur síðustu ár og binda vonir við að með stækkun vallarins komi notkun hans til með að aukast enn frekar.

Við golfvöllinn á Glompuhæð verður einnig settur upp púttvöllur en púttvellir sem hafa verið inni í hverfunum á Ásbrú verða lagðir af. Þá er einnig til skoðunar að setja glompu eða sandgryfju við púttvöllinn þannig að kylfingar geti æft sig í að slá úr glompu. Þá stendur jafnframt til að setja eina til tvær glompur í sumar á golfvöllinn sjálfan, svo hann standi undir nafni, enda á Glompuhæð. Þá er jafnframt verið að skoða gróðursetningu við golfvöllinn, enda er hann á bersvæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024