GÓLFPLÁSS ÍÞRÓTTAHÚSA ÞREFALDAST
Samningar um stærsta íþróttavöll innanhúss hér á landi voru undirritaðir í íþróttahúsi Myllubakkaskóla sl. sunnudag. Forráðamenn Reykjanesbæjar, Verkafls og Landsbankans undirrituðu samninga um byggingu, leigu og fjármögnun byggingarinnar sem verður tilbúin eigi síðar en 18. febrúar árið 2000.Eins og komið hefur fram verður þetta ekki aðeins stærsta íþróttahús landsins heldur og fyrsta sinnar tegundar með gervigras knattspyrnuvelli í fullri stærð. Áætlaður byggingakostnaður er 370 milljónir króna og árleg leiga Reykjanesbæjar er 27 milljónir króna.„Við teljum að svona verkefni eigi eftir að aukast í framtíðinni ekki síst fyrir opinbera aðila, þar sem saman fer bygging, fjármögnun og leiga. Þetta er mjög áhugavert tilraunaverkefni og við teljum verulegt rúm fyrir slíkar framkvæmdir með öðrum í framtíðinni“, sagði Stefán Friðfinsson, framkvæmastjóri Íslenskra aðalverktaka en Verkafl er dótturfyrirtæki félagsins.Húsið mun rísa við Flugvallarveg, norðan Móahverfis í Njarðvík. Í því er gert ráð fyrir hvers konar íþróttaiðkun og margvísleg aðstaða er í þjónustubyggingu. Gert er ráð fyrir áhorfendastæðum fyrir 1000-1500 manns. Heildarflatarmál er 8.344 fermetrar en íþróttavöllurinn er 7.840 ferm. að stærð. Mesta lofthæð er 12,5 metrar. Lóðinni verður skilað með 54 malbikuðum bílastæðum. Húsið er hagkvæmt, þarf lítið viðhald og býður upp á mikinn sveigjanleika. Ofan á gervigrasið, að hluta til eða öllu leyti er hægt að fá fljótandi parketgólf sem sett er á eftir þörfum til sýningarhalds eða til iðkunar handbolta, körfubolta, eða annarra íþróttagreina. Með tilkomu þessa húss mun gólfpláss íþróttahúsa í bæjarfélaginu nær þrefaldast.Fjölnota íþróttahús er enn einn risaverkefnið sem Verkafl tekur að sér. Fyrirtækið er að reisa tvenn stór mannvirki í Svartsengi, annars vegar fyrir Hitaveitu Suðurnesja og hins vegar fyrir Bláa lónið hf. Þá er fyrirtækið að byggja D-álmu við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.myndtexti:Frá undirskrift samninga um byggingu, leigu og fjármögnun fyrsta fjölnota íþróttahúss á Íslandi. Undirskriftin fór fram í minnsta íþróttasal Reykjanesbæjar, í Myllubakkaskóla. VF-mynd/pket.