Golfmeistari slær flatir ber að ofan
Það er sannkölluð sultublíða um allt land í dag eins og flestir vita. Það er samt sjaldgæft að starfsmenn Hólmsvallar í Leiru séu berir að ofan við slátt en Hafliði Már Brynjarsson, sem slær flatir á vellinum stóðst ekki mátið og fór úr að ofan eins og mynd Jóns Þórs Gylfasonar sýnir. Hafliði er nýbakaður 1. flokksmeistari en meistaramóti Golfklúbbs Suðurnesja lauk sl. laugardag. Kylfingar sækja nú golfvelli landsins sem aldrei fyrr í blíðunni. Hólmsvöllur stendur undir nafni sem strandvöllur því brautir eru gular eftir þurrkatíð í allt sumar en starfsmenn vallarins eru duglegir að vökva flatirnar þar sem pútterinn er notaður og þær eru grænar og fallegar.