Golfboltaþjófar slógu út í Keflavíkurhöfn - gómaðir á mynd
Þessir kylfingar æfðu höggin við Keflavíkurhöfn fyrir nokkrum dögum og slógu hundruð golfbolta út í höfnina. Ekki aðeins er staðsetningin sérstök heldur og voru þeir með stolna golfbolta af æfingasvæði Golfklúbbs Suðurnesja.
Að sögn Gunnar Jóhannssonar, framkvæmdstjóra GS hafa þeir orðið varir við óeðlilega fækkun golfbolta af æfingasvæði klúbbsins í Leiru. Þeir fengu ábendingu um æfingar kappanna sem íbúi í nærliggjandi fjölbýlishúsi tók meðfylgjandi ljósmyndir af. Gunnar segir að þegar hann hafi komið á staðinn hefðu margir boltanna verið á svæðinu eftir misheppnuð högg þjófanna. Boltarnir eru merktir GS og það var því auðvelt að sjá að þeir voru fengnir af æfingasvæði GS.
Gunnar sagðist vera búinn að ræða við lögregluna. Kylfingarnir á myndinni geta haft samband við Gunnar hjá GS. Ef þeir gera það ekki mun verða farið fram á að lögreglan komi að málinu og hafi upp á þeim, sem ætti að vera auðvelt af myndunum að dæma.