Gólf steypt í stjórnsýsluhúsi í Sandgerði
Byggingaframkvæmdir við nýtt stjórnsýsluhús í miðbæ Sandgerðisbæjar ganga vel. Búið er að steypa grunn byggingarinnar og í dag var verið að ljúka við steypuvinnu á gólfplötu hluta hússins. Gert er ráð fyrir að innan tveggja vikna verði öll gólfplatan steypt.
Framkvæmdin er á vegum Sandgerðisbæjar, Miðnestorgs ehf og Búmanna hsf, en aðalverktaki er Húsagerðin ehf. Um er að ræð 3ja hæða byggingu, alls um 3.200 m2
Í húsinu mun verða bókasafn, bæjarskrifstofur, ýmiss þjónustustarfsemi, miðjukjarni með þjónustueldhúsi og íbúðir.
Gengið verður frá lóð með malbikuðum bílastæðum, hellulögn og öðrum frágangi. Á lóðinni er gert ráð fyrir fjölskyldugarði og tjörn.
Fyrirhugað er að taka stjórnsýsluhúsið í notkun í febrúar á næsta ári.
Myndin: Unnið við steypuvinnu við gólfplötu í stjórnsýsluhúsi í Sandgerði í dag. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.