„Góður tími hjá okkur núna“ - Hundruð nýrra starfa á Suðurnesjum
-aðilar farnir að leita etir starfsfólki út fyrir Suðurnesin. Fækkar ört á atvinnuleysisskránni
„Það er góður tími hjá okkur núna, mikið af störfum að koma inn og mikil fækkun á atvinnuleysisskránni,“ sagði Íris Guðmundsdóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum. Um hundrað manns hafa fengið störf á frá því í síðsta mánuði og talan á atvinnuleysisskránni mun lækka ört á næstu dögum og vikum.
Á mars í fyrra voru 830 manns (7,5%) á atvinnuleysisskrá en 630 núna í mars (5,6%) eða um 200 færri. Núna mánuði síðar, í lok apríl, eru um 530 manns á skránni. Að sögn Írisar mun sú tala halda áfram að lækka alveg fram til 1. júní. Forsvarsmenn Isavia, IGS og fleiri aðila í flugstöðinni hafa þurft að leita út fyrir Suðurnesin eftir starfsfólki. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar kom inn á þetta í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta í vikunni. Hann segir að einhver dæmi séu um að fólk fái ekki vinnu í flugstöðinni m.a. vegna þess að það fái ekki aðgangsheimild, þar sem það sé ekki með hreint sakavottorð. „Við erum með þungan hóp í hópi atvinnuleitenda sem er erfitt að miðla, m.a. vegna tungumálaerfiðleika, fólk sem hvorki talar íslensku né ensku. Þegar við bjóðum fólki störf spyrjum við alltaf út í sakavottorð,“ sagði Íris.
Aðspurð um það að fyrirtæki séu farin að leita út fyrir svæðið að starfsfólki sagði hún að þó hún myndi tæma atvinnuleysisskrána myndi það ekki duga. Skráin myndi aldrei geta fullnægt allri þörf eftir starfsfólki. „Þetta eru góðar fréttir fyrir svæðið. Ferðaþjónustan er lang stærsti aðilinn sem er að óska eftir starfsfólki um þessar mundir, aðilar í og við flugstöð en einnig hótel- og gistiheimili. Svo detta líka inn fyrirspurnir frá fiskvinnslu og öðrum aðílum.“
Þeir Gunnar Olsen framkvæmdastjóri IGS og Haraldur Hreggviðsson matreiðslumaður hafa í nógu að snúast í og við flugstöðina. Starfsmenn IGS nálgast eitt þúsund í sumar.