Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 23. mars 2000 kl. 13:02

Góður hagnaður hjá Samkaupum

Rekstur Samkaupa hf. gekk mjög vel á síðasta ári en hagnaður varð 89,9 milljónir króna fyrir skatta en rúmar 52 millj. kr. eftir skatta og afskriftir. Guðjón Stefánsson, framkvæmdstjóri Samkaupa segir fyrirtækið tilbúið í hvers kyns breytingar og útilokar ekki samruna við önnur félög.Aðalfundur félagsins var haldin í kvöld.„Matvörumarkaðurinn er líflegur og við erum vel í stakk búin að taka þátt í örri þróun, sameinast öðrum eða eflast með öðrum hætti. Við ætlum okkur ekki að sitja eftir“, sagði Guðjón Stefánsson á aðalfundi Samkaupa í safnaðarheimilinu í Innri-Njarðvík í kvöld. Síðasta ár var fyrsta ár Samkaupa hf. sem hlutafélags en um áramótin 1998-99 var sú breyting að Kaupfélag Suðurnesja stofnaði Samkaup hf. og lagði því til verslunarrekstur sinn og hlutafé upp á 225 millj. kr. Heildarvörusala nam 2.868 milljónum króna sem er 29% aukning frá veltu kaupfélagsins árið áður. Samþykkt var að greiða 5% arð af hlutafé og sagði formaður stjórnar að það jafngilti 15% ársávöxtun á nafnverð bréfanna þar sem útboð hlutafjár fór ekki fram fyrr en eftir mitt síðasta ár. Útboðið var þá á sölugenginu 2 og nýttu 307 félagsmenn forkaupsrétt sinn og seldist allt hlutafé, 25 milljónir króna á nafnavirði. Á síðasta ári fjölgaði verslunum Samkaupa um fimm. Framundan er m.a. helmingsstækkun á Samkaup í Njarðvík og sagði Guðjón að stefnan væri að koma því verki eitthvað áleiðis á árinu. Magnús Haraldsson, formaður stjórnar sagði að Kaupfélag Suðurnesja hefði verið fyrsta kaupfélagið á landinu til að breyta rekstrarformi þess í hlutafélag. Fyrsta útboðið hefði gengið mjög vel en stefnt væri að öðru útboði á nýju hlutafé fljótlega. Þá væri stefnt að skráningu á Verðbréfaþing Íslands innan árs. „Það er enn markmið stjórnar að þetta gangi eftir á næstu einu til tveimur misserum“, sagði Magnús.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024