Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Góður árangur Myllubakkaskóla í samræmdum prófum
Miðvikudagur 14. desember 2016 kl. 06:10

Góður árangur Myllubakkaskóla í samræmdum prófum

Nemendur í 7. bekk í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ stóðu sig best allra á landinu í samræmdum prófum í stærðfræði sem lögð voru fyrir í september. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu og á Vísi í gær. Af sex skólum í Reykjanesbæ voru þrír sem komust á lista þeirra skóla sem koma best út í stærðfræði. Ásamt Myllubakkaskóla voru það Njarðvíkurskóli og Holtaskóli. Enginn skólanna í Reykjanesbæ er á lista þeirra sem lakasta útkomu fá úr samræmdum prófum.

Niðurstöður samræmdra prófa byggja á því að meta stöðu hvers nemanda í samanburði við jafnaldra á landinu öllu. Að sögn Bryndísar Bjargar Guðmundsdóttur, skólastjóra Myllubakkaskóla, hefur Reykjanesbær unnið ötullega að því að bæta árangur nemenda. „Við teljum þetta meðal annars vera árangur þeirrar vinnu. Mikil vinna með nemendur og góð samvinna við foreldra er að skila sér í þessum góða árangri. Í stærðfræði var farið hraðar yfir námsefnið en áætlað er samkvæmt námsskrá.“ Þá segir hún kennara hafa lagt mikla áherslu á að nemendur öðlist góðan skilning á efninu og að atriðin sem farið er yfir festist í sessi með endurtekningu. Nánar verður fjallað um góðan árangur Myllubakkaskóla í Víkurfréttum sem koma út á morgun, fimmtudaginn 15. desember.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024