Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 19. janúar 2000 kl. 18:44

GÓÐUR AFLI HJÁ ERNI KE 14

Örn KE 14 fékk 27 tonn af stórum og góðum þorski í tveimur hölum á milli jóla og nýárs. Þessi góði afli fékkst á sandinum úti við Skerin um átta mílur norðvestur af Eldey. Frá þessu er sagt í Fiskifréttum. Meðalvigtin á þorskinum var 6,7 kíló og Karl Ólafsson skipstjóri sagði að slegist hefði verið um fiskinn á markaðinum. „Meðalverð hjá okkur var um 200 krónur fyrir kílóið og aflaverðmætið í þessari einu veiðiferð var samtals um 4,6 milljónir króna“, segir Karl. Nýtt og öflugt skip Örn KE 14 var smíðaður í Póllandi og kom til landsins þann 4.júní s.l. Skipið er 135 brúttórúmlestir að stærð og kom í stað 36 brúttórúmlesta báts sem hét Haförn KE. Nýja skipið er sérhannað til veiða með dragnót og togkrafturinn er um níu tonn en gamla skipið var aðeins með 4 tonna togkraft. Karl sagði að aðbúnaðurinn fyrir áhöfnina væri allur mun betri í nýja skipinu og auk þess væri þetta mun öflugra skip. „Breiddin er um átta metrar en það er sambærilegt við breiddina á 40 metra löngum togurum“, segir Karl og tekur fram að það fari sérlega vel um áhöfnina í öllu þessu rými. Vertíðin verður góð Karl er bjartsýnn á komandi vertíð og spáir því að aflinn fari að glæðast, en aflabrögð voru ekki neitt sérstök í haust. „Það er ekkert nýtt að það sé tregfiskerí frá hausti og fram undir áramót og það á ekki síst við um þorskinn. Við höfum reyndar getað slegið okkur upp af og til í vetur eftir suðvestanbrælur og svo hefur tíminn milli jóla og nýárs jafnan reynst okkur góður. Við fórum reyndar ekki í nema tvær veiðiferðir á milli hátíðanna en ég get ekki verið annað en ánægður með árangurinn. Fyrir utan 27 tonna aflann þá fengum við hálft fjórða tonn af þorski í hinum róðrinum og það er í góðu lagi. Þegar við lentum í mokinu þá var að skella á aftakaveður. Smærri dragnótabátarnir sneru við vegna veðurs en sem betur fer þá gátum við athafnað okkur og þessi bræla skilaði okkur semsagt 27 tonnum af þorski í tveimur hölum. Þessum árangri hefðum við ekki ná á gamla bátnum, svo mikið er víst“, segir Karl og er auðheyrilega hæstánægður með nýja skipið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024