Góðar gjafir til Velferðarsjóðs Suðurnesja
Velferðarsjóður á Suðurnesjum eflist jafnt og þétt og þeir eru margir sem koma að eigin frumkvæði með rausnarlegar gjafir í sjóðinn. Við kvöldsamveru í kirkjunni 2. maí komu þrír aðilar færandi hendi. Gunnar H. Gunnarsson frá Virkjun, afhenti 20 þúsund krónur sem er andvirði vöfflusölu á sumardaginn fyrsta. Laufey Kristjánsdóttir afhenti 210 þúsund sem er afrakstur söfnunar fermingarárgangs 1970 sem fagnaði fjörutíu ára afmæli skömmu áður. Vilmundur Friðriksson átti hins vegar sjálfur fjörutíu ára afmæli og óskaði hann eftir því að gestirnir gæfu til Velferðarsjóðsins í stað þess að koma með hefðbundnar gjafir. Færði hann kr. 115 þúsund sem renna til stuðnings fjölskyldu hér í bæjarfélaginu sem hefur mátt þola mikið mótlæti.
„Er þakkarefni hversu mjög fólk hefur stutt við bakið á sjónum sem hefur gert honum kleift að veita ómetanlega aðstoð nú þegar mest á reynir. Guð blessi góða gjafara,“ segir séra Skúli S. Ólafsson í tilkynningu.
Á myndinni eru: aftari röð f.v. Sr. Skúli S. Ólafsson, Gunnar H. Gunnarsson, Laufey Kristjánsdóttir og sr. Sigfús Baldvin Ingvason. Í fremri röð eru feðgarnir Hilmar Örn og Vilmundur Friðriksson.