Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Góðar fréttir
Laugardagur 10. mars 2012 kl. 14:14

Góðar fréttir

Það eru góðar fréttir að teikningar að 60 rúma hjúkrunarheimili við Nesvelli í Reykjanesbæ hafi verið samþykktar. Þetta er eitt af stóru atvinnuverkefnunum á Suðurnesjum og mun vonandi skapa mörgum vinnu við uppbygginguna en áætlað er að heimilið verði opnað árið 2014. Framkvæmdir munu standa yfir í um tvö ár og er kostnaður áætlaður vel á annan milljarð króna. Nú er lag fyrir heimamenn að koma að þessu verki og við skulum vona að það takist. Þá er þetta auðvitað líka stórt skref í öldrunarmálum í Reykjanesbæ sem munu færast skref upp á við með þessu nýja heimili.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Kölkumálið var mál maálanna á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag. Samfylkingin er alfarið á móti sölu sorpeyðingarstöðvarinnar til bandarísks fyrirtækis og bendir á að stækka þarf stöðina tvöfalt og brennslu þrefalt. Þá vill Samfylkingin, ef málið fer í gegn hjá meirihlutanum og eigendum Kölku sem eru sveitarfélögin, að það fari í íbúakosningu í Reykjanesbæ. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, meirihlutans í bæjarstjórn, eru hlynntir því að skoða sölu með jákvæðum augum og eru með stuðning fulltrúa Framsóknar. Þeir telja ekki rétt að fara með málið í íbúakosningu og benda á að kostnaður við slíka kosningu sé um 10 millj. kr. auk þess sem kryfja þurfi málið betur og fá meiri upplýsingar. Það er ljóst að hér er komið stórt mál á borð bæjarstjórnar og eldfimt, svo um munar. Við fáum athyglisverðar upplýsingar um Kölku í viðtali við Ríkharð Ibsen, stjórnarformann Kölku í þessu blaði. Hvort nýr bandarískur eigandi verður orðinn að Kölku innan tíðar skal ósagt látið. Á þessu máli er sannarlega fleiri en ein hlið.


Nettómótið í körfubolta í Reykjanesbæ er orðinn einn stærsti íþróttaviðburður hér á landi fyrir krakka. Yfir ellefu hundruð keppendur mættu um síðustu helgi og öttu kappi við jafnaldra sína víðs vegar af landinu. Eins og kemur fram í grein frá Stefáni Bjarkasyni, framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs þarf samstarf margra aðila í bæjarfélaginu til að allt gangi snurðulaust fyrir sig í svona stóru móti. Gist var í skólum, farið í bíó, tvö þúsund krakkar og foreldrar mættu í Sundmiðstöð Keflavíkur og þá nutu veitingastaðir og þjónustuaðilar í bænum þess að nærri þrjú þúsund gestir, börn og foreldrar voru mættir í heimsókn. Þegar allt gengur svona snurðulaust og allir gestir ánægðir eru heimamenn glaðir, ekki síst foreldrar barnanna á Suðurnesjum sem eiga ekki minnstan þátt í þessu öllu. Sannarlega frábært framtak og samstaða hjá erkifjendunum Keflavík og Njarðvík í körfunni. Svona á að vinna saman.

Páll Ketilsson