Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Góð þátttaka í forvarnadegi ungra ökumanna
Föstudagur 27. september 2013 kl. 10:55

Góð þátttaka í forvarnadegi ungra ökumanna

Forvarnardagur ungra ökumanna var haldinn þann 25. september sl. Þátttakendur í forvarnadeginum eru nemendur á fyrsta ári í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en forvarnadagurinn er haldin tvisvar sinnum á ári, á haust- og vorönn skólans.

Að venju var forvarnadagurinn samstarfsverkefni Reykjanesbæjar, Lögreglunnar á Suðurnesjum, Brunavarna Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Tryggingamiðstöðvarinnar.
 
Markmið forvarnadagsins er að fræða ungmenni, sem mörg hver taka bílprófið á næstu misserum, um þá ábyrgð sem því fylgir að vera í umferðinni.  Einnig að fræða þau um ýmsa þætti sem tengjast því að vera ungur og óreyndur ökumaður.  Má þar nefna hættu sem skapast við hraðakstur, áhrif ölvunar á hugarástand og ökufærni, þátt trygginga þegar kemur að bílslysum og ýmislegt fleira.  Meginmarkmið forvarnadagsins er að fækka umferðarslysum og auka öryggi í umferðinni.

Deginum var skipt í fjórar lotur þar sem fræðsla frá lögreglu um afleiðingar umferðarlagabrota og þar sérstaklega tekin fyrir nýleg bílslys þar sem ungir ökumenn koma við sögu, nemendur gengu þrautabraut með ölvunargleraugu á nefinu undir leiðsögn starfsmanna Brunavarna Suðurnesja. Einnig var fræðsla á vegum Tryggingamiðstöðvarinnar um tjón, afleiðingar og brot gegn þriðja aðila.  
Í hádeginu voru svo grillaðar pulsur og spjallað.  

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur einnig boðið upp á fræðslu á sal skólans, þar sem allir nemendur fá tækifæri til að fræðast um umferðaröryggi.  Þar hafa til dæmis fórnarlömb og gerendur í umferðarslysum komið fram og sagt sögu sína í forvarnaskyni.  Þykir það mjög áhrifaríkt að heyra frá fyrstu hendi hvaða afleiðingar það getur haft að vera annars hugar á bak við stýrið og er vonandi hvatning til allra að taka ekki óþarfa áhættu í umferðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024