Góð rekstrarniðurstaða þrátt fyrir hallarekstur
Þrátt fyrir halla á reglubundnum rekstri skilar ársreikningur Sveitarfélagsins Voga 2008 jákvæðri rekstrarniðurstöðu vegna mikilla fjármagnstekna. Þetta kom fram í máli Róberts Ragnarssonar bæjarstjóra í Vogum þegar ársreikningurinn var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn nú fyrir helgi.
Róbert sagði trygga fjármálastjórn og gott samstarf við forstöðumenn stofnanna grundvöll þess að hægt væri að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins. Mjög mikilvægt væri að halda áfram aðhaldsaðgerðum til að ná rekstri sveitarfélagsins á réttan kjöl, því óvarlegt væri að treysta á fjármagnstekjur til lengri tíma.
Helstu niðurstöður samstöðureiknings eru eftirfarandi:
Tekjur 631.328.021 kr.
Gjöld 691.852.976 kr.
Rekstrarniðurstaða f/fjármagnsliði -60.524.955 kr.
Fjármagnsliðir 193.346.240 kr.
Rekstrarniðurstaða 132.821.285 kr.
Eignir 2.168.936.130 kr.
Skuldir og skuldbindingar án fasteignaleigusamninga 641.294.000kr.
Skuldbindingar vegna fasteignaleigusamninga 1.870.958.000 kr.
Veltufé frá rekstri 243.740.453 kr.