Góð gjöf Kiwanismanna
Kiwanisklúbburinn Keilir kom Sundmiðstöð Keflavíkur færandi hendi í gær. Ragnar Örn Pétursson, formaður styrktarnefndar Keilis, færði Jóni Jóhannsyni forstöðumanni sundmiðstöðvarinnar stól sem er sérhæfður fyrir fötluð börn til sundnotkunar. Gjöfin er liður í styrktarverkum Keilismanna, þar sem þeir færa gjafir á hverju ári fyrir góðan málstað.
Stóllinn kostar 180.000 krónur og mun koma að góðum notum í frábærri aðstöðu sem Sundmiðstöðin hefur fram að bjóða. Þar er sérklefi og sturtuaðstaða fyrir fötluð börn og með tilkomu stólsins er Sundmiðstöð Keflavíkur að verða ein besta aðstaða fyrir fötluð börn í íslenskum sundlaugum.
Sóley Eysteinsdóttir vígði stólinn og var ekki annað að sjá en að hún væri kát með gripinn og spennt fyrir að komast í sundlaugina.
Rakel Þorsteinsdóttir mamma Sóleyjar var að vonum ánægð með gjöfina og sagði að nú væri ekkert mál að fara ein í sund með Sóleyju en áður þurfti tvo til. Hún sagði að fötluð börn ættu eftir að nota stólinn mikið og að það gæfi foreldrum fatlaðra barna möguleika á að fara oftar með krakkana í sund.
VF-Mynd/Bjarni - Sóley í nýja stólnum ásamt foreldrum sínum Eysteini Jónssyni og Rakeli Þorsteinsdóttur og systur sinni Írisi Ernu. Afar Sóleyjar, þeir Þorsteinn og Jón Eysteinsson voru einnig mættir við afhendingu stólsins ásamt þeim Jóni Jóhannssyni og Ragnari Erni.