Góð fjárhagsstaða hjá Sandgerðisbæ
Sandgerðisbær á hlutfallslega meira af peningalegum eignum upp í skuldir en önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Þetta voru niðurstöður könnunar sem Rekstur og Ráðgjöf gerði á skuldaþoli Sandgerðisbæjar í samanburði við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum á tímabilinu 1994-1998.Skuldir í hlutfalli við skuldaþol í árslok 1998 var 40,5% sem er það lægsta á tímabilinu 1994-1998 en hjá öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum var hlutfallið 45,5%. Skuldaþolshlutfall segir til um hversu háar skuldirnar eru af skuldaþolinu. Nettóskuldaþol bæjarfélagsins er 15,7%, samanborið við 31,3% hjá hinum sveitarfélögunum. Í könnuninni kom einnig fram að skuldir Sandgerðisbæjar hafa aukist um 26% en um 29% hjá hinum sveitarfélögunum.Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar sagði að bærinn hafi látið gera umrædda könnun til að skoða skuldastöðu Sandgerðisbæjar m.t.t. nýrra hugmynda um skuldaþol sveitarfélaga, þ.e.a.s. hvað bæjarfélagið mætti skulda miðað við ýmsa liði, tekjur og fleira. „Við stöndum mjög vel miðað við hin sveitarfélögin. Þrátt fyrir þessa góðu stöðu þá ákváðum við að fara ekki í umtalsverðar framkvæmdir á þessu fjárhagsári því að skuldir sveitarfélaga eru almennt of miklar. Við höfum verið í miklum framkvæmdum síðustu árin og viljum bæta þjónustuna enn frekar. Við ætlum okkur þó að fara varlega í þeim efnum“, sagði Sigurður.