Góð byrjun á loðnuvertíð
				
				Ágæt loðnuveiði var fyrri hluta síðustu viku við landhelgismörkin á milli Íslands og Grænlands, beint norður frá Skaga. Að sögn Sigurðar Sigurðssonar, skipstjóra á Erni KE, létu skipstjórar íslensku skipanna sem þar voru, vel af aflabrögðum. Flotinn fann loðnuna eftir ábendingu frá flugvél, sem hafði tekið eftir stórhvöldum og miklu fuglalífi á svæðinu. Sigurður sagði í samtali við Fiskifréttir að flest skipin sem voru á um 68°06´N og vestan við 20°V, hafi verið að fá fallega og átulitla loðnu. Þetta svæði er nálægt grænlensku landhelginni en loðnan virðist hafa verið á norðvesturleið síðustu daga. Að sögn Sigurðar eru menn þokkalega bjartsýnir á að hægt verði að fá góða loðnuveiði í sumar, en því væri ekki að neita að nokkurt bakslag hafi komið í mannskapinn þegar veiðin datt niður um síðustu helgi.„Byrjunin á sumarvertíðinni lofar góðu. Það hefur verið mjög rólegt yfir loðnuveiðum undanfarin sumur, en nú byrjaði veiðin með látum og menn voru að fá risaköst fyrstu dagana. Við fylltum okkur t.d. í þremur köstum í fyrsta túrnum og svo í fjórum í öðrum túrnum, en það er mjög sjaldgæft að  veiðin byrji svona vel“, sagði Sigurður.
				
	
				
					
						
					
					
						
					
				
				
				 								
			




 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				