Góð aflabrögð hjá smábátunum
Vel hefur gefið á sjó frá Sandgerði að undanförnu. Smábátarnir hafa verið að fiska vel í skjóli fyrir austanáttinni en lélegra hefur verið á dragnótinni. Kropp hefur verið hjá netabátunum.
Töluvert hefur verið af aðkomubátum í Sandgerði, enda haga menn róðrum eftir veðri og vindum og því hvar fiskurinn gefur sig. Þannig hafa t.d. margir smábátar frá Grindavík leitað skjóls fyrir austanáttinni og róið frá Sandgerði.
Styrmir Jóhannsson, stöðvarstjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja í Grindavík, segir að janúar hafi verið með ágætasta móti og nokkuð betri en í fyrra. Verðið á markaði hélst einnig hátt framan af en lækkaði þó örlítið í síðustu viku, eins og jafnan gerist þegar framboðið eykst. Að sögn Styrmis hafði verðið togast aftur upp á við í gær.
Meðalverð á fiskmörkuðum í janúar var 176 krónur.
Mynd: Frá Sandgerðishöfn: VF-mynd:elg