Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Góð aflabrögð hjá dragnóta- og netabátum
Þriðjudagur 4. mars 2008 kl. 11:16

Góð aflabrögð hjá dragnóta- og netabátum

Netabátarnir hafa verið að gera það gott síðustu daga og enduðu margir nýliðinn mánuð vel hvað aflabrögð snertir. Þá hafa dragnótabátarnir einnig verið í mokveiði upp á síðkastið. Mikið líf var við höfnina í Sandgerði á laugardag þegar bátarnir komu inn og þurftu sumir að bíða eftir að komast að.

„Jú, það er langt síðan þetta hefur sést, þó svo að landanir gangi miklu hraðar fyrir sig en áður. Þetta var góður dagur,“ sagði Sigurður Kristjánsson, stöðvarstjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja í samtali við VF.
„Þetta hefur verið gott undanfarið, dragnótabátarnir hafa verið að gera það gott. Það hefur eitthvað minna verið um að vera á línunni en þó er meiri þorskur þar. Dragnótabátarnir hafa mest verið að landa ýsu. Svo er að lifna nokkuð hjá netabátunum,“ sagði Sigurður. Hann segir framboðið á markaðnum hafa verið gott undanfarið. Verðið hafi nokkurn veginn haldist í þorskinum en eitthvað dalað í ýsu.
„Þetta er heldur að glæðast eftir mikla ótíð og langvarandi brælur. Menn voru að forðast þorskinn í haust og sóttu meira í ýsuna. Núna er þetta að snúast við. Það er mjög góður þorskur á ferðinni og ýsan er þokkaleg líka,“ sagði Sigurður.

Á vefnum www.aflafrettir.com má sjá helstu aflatölur fyrir febrúarmánuð og eru nokkrir Suðurnesjabátar þar ofarlega á lista.
Erling KE var með 88 tonn í þremur sjóferðum, Grímnesið GK með 63 tonn einnig í þremur ferðum, Marta Ágústssdóttir var með 56 tonn í fjórum ferðum, Ósk KE með 38 tonn í fimm ferðum og Maron GK var með 21 tonn í fjórum ferðum.

Af minni bátum þá landaði að Sunna Líf 17 tonnum í fjórum sjóferðum, Svala Dís KE með var með18 tonn fimm ferðum og Maggi Jóns var með 21 tonn í 5 ferðum, svo einhverjir bátar séu nefndir. Á www.aflafrettir.com má sjá nánar aflabrögð einstakra báta.


VF-mynd/elg: Höfnin í Sandgerði iðaði af athafnalífi síðdegis á laugardag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024